Skyndihjálparmaður ársins 2005

Guðrún Björk Sigurjónsdóttir

Úlfar Hauksson formaður Rauða kross Íslands, Björn Bjarnason dómsmálaráðherra með Guðrúnu Björk Sigurjónsdóttur skyndihjálparmanni ársins 2005. Með þeim eru börnin sem nutu björgunar Guðrúnar.

Rauði kross Íslands hefur valið Guðrúnu Björk Sigurjónsdóttur sem Skyndihjálparmann ársins fyrir rétt viðbrögð á neyðarstundu. Björn Bjarnason dómsmálaráðherra afhenti Guðrúnu Björk viðurkenninguna á Hótel Loftleiðum í dag við setningu ráðstefnunnar 112 í tíu ár ? hvað hefur breyst, hvað er framundan? sem haldin er á 112 daginn og afmæli neyðarlínunnar.

Guðrún Björk vann það einstaka þrekvirki að bjarga þriggja ára dreng og stúlku frá drukknun þegar þau lentu í sjónum á Snæfellsnesi í apríl í fyrra. Hún var þar við skeljatínslu ásamt systur sinni og frænku og börnum þeirra allra. Í einni svipan soguðust börnin tvö út þegar enginn sá til.

Um leið og Guðrún áttaði sig á hvað hafði gerst hóf hún björgunaraðgerðir. Kunnátta hennar í skyndihjálp rifjaðist upp á svipstundu og hún brást hárrétt við aðstæðum. Hún náði drengnum strax upp úr og þar sem hann hóstaði og sýndi viðbrögð lét hún dóttur sína bera hann að landi. Guðrún þurfti að synda að stúlkunni og varð strax vör við að hún andaði ekki. Guðrún hóf blástur þegar í sjónum og komst stúlkan til meðvitundar þegar þær bar á land. Bæði börnin fengu sýkingu í lungun þar sem þau gleyptu mikið af sjó en hafa náð sér að fullu í dag.

Guðrún Björk hafði tekið tvö námskeið í skyndihjálp á vegum Rauða krossins. Það er ekki vafi á því að með skjótum viðbrögðum sínum bjargaði hún lífi barnanna tveggja. Auk viðurkenningarinnar hlýtur hún gjafakort frá Olíufélaginu ESSO sem er samstarfsaðili Rauða krossins að útbreiðslu skyndihjálpar til almennings.

Þetta er í fimmta sinn sem Rauði kross Íslands útnefnir Skyndihjálparmann ársins. Viðurkenninguna hlýtur sá einstaklingur sem hefur á árinu veitt skyndihjálp á eftirtektarverðan hátt. Tilgangur tilnefningarinnar er ekki síður að hvetja aðra til að læra skyndihjálp og vera þar af leiðandi hæfari til að veita aðstoð á vettvangi slysa og áfalla.

Þó aðeins einn sé útnefndur Skyndihjálparmaður ársins er hver og einn sem tilnefndur er hversdagshetja sem bjargað hefur mannslífi. Í flestum tilfellum var það við aðstæður sem eru hluti af daglegu lífi, aðstæður sem hver og einn gæti hæglega lent í.

Rauði kross Íslands veitir einnig eftirtöldum einstaklingum viðurkenningu fyrir skyndihjálparafrek á árinu 2005: Sigríði Guðjónsdóttur íþróttakennara á Bolungavík fyrir að hafa blásið lífi í 11 ára dreng sem var komin að drukknun í skólasundi, Árna Valgeirssyni verkstjóra í fiskvinnslu í Stykkishólmi fyrir að hafa hnoðað lífi í vinnufélaga sinn sem lenti í hjartastoppi, Oddnýju Þóru Baldvinsdóttur leikskólakennara í Vogum sem með réttum viðbrögðum losaði um aðskotahlut í hálsi samstarfskonu sinnar og Jónu Björk Grétarsdóttur frjálsíþróttakennara í Vestmannaeyjum fyrir að hefja tafarlausar endurlífgunaraðgerðir á manni sem hneig niður vegna hjartastopps.

Þessi atvik sýna glögglega að allir geta átt von á að lenda í þeim aðstæðum að þurfa með snarræði að bjarga sjálfum sér eða öðrum hvort sem þeir eru við leik eða störf. Allir búa yfir þeim dýrmæta hæfileika að geta bjargað lífi en suma vantar einungis herslumuninn til að ná tökum á tækninni sem til þarf. Þekking í skyndihjálp getur skipt sköpum.