Skyndihjálparmaður ársins 2004

Anton Gylfi Pálsson

Rauði kross Íslands hefur valið Anton Gylfa Pálsson sem Skyndihjálparmann ársins fyrir rétt viðbrögð á neyðarstundu. Sigrún Árnadóttir framkvæmdastjóri Rauða krossins afhenti Antoni Gylfa viðurkenninguna við hátíðlega athöfn á 1-1-2 deginum í dag. Anton Gylfi beitti kunnáttu sinni í skyndihjálp til bjargar mannslífi, með hetjulegri framgöngu þegar á reyndi.

Tólf ára gamalt skyndihjálparnámskeið Antons Gylfa Pálssonar rifjaðist upp fyrir honum á svipstundu þegar hann sýndi snarræði og bjargaði mannslífi með því að hann hnoða og blása lífi í Ásgeir Sigurðsson sem fengið hafði hjartastopp eftir að hafa verið áhorfandi á handboltaleik.

Anton var ekki einn síns liðs og lögðu félagar hans tveir sitt af mörkum. Annar var í stöðugu sambandi við Neyðarlínuna en hinn aðstoðaði Anton við endurlífgunina. Ásgeir er við góða heilsu í dag.

Rauði kross Íslands hefur valið Skyndihjálparmann ársins síðan árið 2000. Skyndihjálparmaður ársins er sá einstaklingur sem hefur á árinu veitt skyndihjálp á eftirtektarverðan hátt. Tilgangur tilnefningarinnar er ekki síður að hvetja aðra til að læra skyndihjálp og vera þar af leiðandi hæfari til að veita hjálp á vettvangi slysa og áfalla.

Allir ættu að kunna að veita skyndihjálp því flestir þurfa fyrr eða síðar á því að halda, annaðhvort vegna annarra eða sjálfra sín. Til dæmis er talið að um 200 Íslendingar látist skyndilega vegna hjartastopps á hverju ári. Jafnvel aðeins fjögurra mínúta töf eftir að hjarta manns hefur stöðvast getur kostað hann lífið.

Að auki veitir Rauði kross Íslands nokkrum einstaklingum viðurkenningar fyrir skyndihjálparafrek á árinu 2004. Annars vegar er um að ræða tvær ungar stúlkur frá Egisstöðum: Jóhönnu Kolbjörgu Sigurþórsdóttur, 10 ára, og Rut Malmberg, 11 ára. Þær björguðu lífi vinkonu sinnar þegar hún fékk ofnæmislost með því að hringja strax á sjúkrabíl og hlúa að henni á fumlausan hátt meðan beðið var eftir aðstoð. Héraðs- og Borgarfjarðardeild Rauða krossins veitir þeim viðurkenningu kl. 17 í dag á Egilstöðum.

Hins vegar fá viðurkenningu tveir fullorðnir menn á Selfossi; Gunnar Kristmundsson, 71 árs, og Gunnar Álfar Jónsson, 70 ára. Þeir björguðu lífi félaga síns sem á íþróttaæfingu eldri borgara fékk hjartaáfall, með því að hnoða og blása lífi í hann þar til sjúkraflutningamenn og læknar komu á vettvang. Félagi þeirra lifir eðlilegu lífi í dag. Árnesingadeild Rauða krossins veitir þeim viðurkenningu á Selfossi í dag.

Þessi atvik sýna að þekking í skyndihjálp er nauðsynleg öllum, sama hvort viðkomandi er ungur eða gamall. Líkja má aðhlynningu og flutningi slasaðra við keðju þar sem sá sem veitir skyndihjálp er fyrsti hlekkur keðjunnar. Því má segja að þekking í skyndihjálp geti stuðlað að betra og öruggara samfélagi.