Skyndihjálparmaður ársins 2001

Sigrún Heiða Pétursdóttir

Það hlýtur að vera martröð hvers foreldris að koma að ungu barni sínu þar sem það hefur gleypt sogskál og getur ekki andað. Sigrún Heiða Pétursdóttir var í þessari stöðu skömmu fyrir jól, en sem betur fer hafði hún verið nýbúin að kynna sér ungbarnaskyndihjálp og brást við af því snarræði og yfirvegun sem nauðsynleg er þegar mikið liggur við. Henni tókst að snúa sogskálinni þannig að hún lokaði ekki öndunarvegi ellefu mánaða gamals sonar síns, Samúels Þórs Sölvasonar, og náði henni að lokum upp.

„Þetta atvik og það að hafa næstum því misst barnið breytti öllu, enda gæti ég ekki hugsað mér lífið án sonar míns, sagði Sigrún þegar Séð og heyrt veitti henni svokallaða hetjutékka í viðurkenningarskyni.

Rauði kross Íslands og Séð og heyrt hafa með sér samstarf um að kynna skyndihjálp, og Rauði krossinn heiðrar í því sambandi árlega Skyndihjálparmann ársins, einhvern sem þykir hafa sýnt snarræði og þekkingu á grundvallaratriðum skyndihjálpar. Þá birtir Séð og heyrt einföld skyndihjálparráð í tengslum við umfjöllun um fólk sem hefur sýnt snarræði við björgun.

Greinin úr séð og heyrt í febrúar 2002:
Samúel Þór Sölvason 11 mánaða, varhætt kominn þann 19. desember sl. Það var í raun aðeins snarræði móður hans Sigrúnar Heiðu, sem varð til þess að hann lét ekki lífið.

Sigrún Heiða, sem er nemi á sálfræðilínu við Fjölbrautarskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki, er í sambúð með Sölva Traustasyni rennismið. Þann 19. desember hafði hún lokið öllum prófum og var í óða önn að undirbúa jólin. Á meðan hún bisaði við að festa jólaseríur í glugga sat Samúel Þór hinn rólegasti á gólfinu og dundaði sér með dót. „Ég var með plast sogskálar til þess að festa jólaseríur í glugga og tók eftir því að hann hafði náð í eina. Eins og börn gera gjarnan setti hann sogskálina í munninn og þegar ég ætlaði að taka hana kyngdi hann,“ segir Sigrún Heiða og á greinilega erfitt með að rifja þetta upp. Daginn áður en slysið varð hafði hún gluggað í bók um skyndihjálp í því skyni að fræðast um ungbarnaskyndihjálp. Hún viss því uppá hár hvernig átti að bregðast við. „Ég tók hann upp á fótunum og hvolfdi honum en það virkaði ekki. Þá tók ég hann og setti á læri mér og sló í bakið á honum en það var líka án árangurs. Mitt lokaúrræði var að setja hana í læsta hliðarlegu og þrýsta undir rifbein hans. Þegar ekkert af þessu virkaði var ég orðin alvarlega hrædd, enda slefaði Samúel mikið og ég heyrði að hann átti erfitt með andardrátt. Það var alveg sama hvað ég gerði, aðskotahluturinn var það langt niðri í hálsi hans að ég náði honum ekki upp. Ég rauk í símann og hringdi á neyðarlínuna.“

Var farinn að blána
Þegar þarna var komið sögu var Samúel Þór tekinn að blána en þá loks náði Sigrún að snúa sogskálinni þannig að hún lokaði ekki lengur öndunarvegi hans. Eftir það náði hún sogskálinni upp og hringdi aftur í neyðarlínuna til að láta vita af því. Stuttu síðar kom hjúkrunarfræðingur sem búsettur var í þarnæsta húsi við Sigrúnu á vettvang. Hún hafði samband við sjúkrabíl sem lagður var af stað og eftir að hafa ráðfært sig við Sigrúnu var ákveðið að þiggja vitjun læknis. Þegar læknirinn kom á staðinn klukkan 14:30 skoðaði hann Samúel og sagði að hann væri með sár í hálsinum en að öðru leyti væri í lagi með hann.

Um kvöldið bar Samúel sig aumlega og vildi hvorki borða né sofa. Foreldrar hans hringdu því á lækni.

„Læknirinn sagði okkur að gefa honum 125 mg stíl og fara síðan að sofa. Það er skemmst frá því að segja að ekkert okkar svaf þessa nótt. Samúel sofnaði klukkan átta morguninn eftir en ég sat enn grátandi og gat ekki hætt að hugsa um hvað hefði getað gerst. Ef ég hefði ýtt á sogskálina þegar ég var að reyna að ná henni hefði getað farið illa.“