Skyndihjálparmaður árins 2000

Jóhann Bjarnarson

Rauði kross Íslands útnefndi 14. mars 2001 í fyrsta sinn Skyndihjálparmann ársins, en ætlunin er að standa að slíku vali árlega í samvinnu við Neyðarlínuna og tímaritið Séð og heyrt.

Skyndihjálparmaður ársins 2000 var valinn Jóhann Bjarnason, organisti og kennari við grunnskólann á Hólum í Hjaltadal. Jóhann notaði kunnáttu sína í skyndihjálp eftir að hann bjargaði barni sínu úr bíl upp úr Blöndu í nóvember 2000 og lífgaði það við.

„Jóhann beitti kunnáttu sinni í skyndihjálp með snarræði og hetjulegri framkomu þegar á reyndi,” segir í viðurkenningarskjali sem Jóhanni var afhent á Hólum.

Með viðurkenningu Rauða krossins fékk Jóhann 50.000 króna ávísun frá Séð og heyrt. Ítarlegt viðtal er við Jóhann í blaðinu sem kemur út í dag.

Útnefningin fór fram í samvinnu við Neyðarlínuna, sem sinnir daglega neyðarkalli fjölda manns um allt land. Starfsfólk Neyðarlínunnar leiðbeinir fólki oft um fyrstu viðbrögð þegar hringt er í 112 í kjölfar slyss.

Greinin í Séð og heyrt þann 14. mars:

Þrautgóður á raunastund!
Jóhann ætlaði að skreppa með fjölskylduna til Reykjavíkur þegar bíllinn lenti á hálkubletti við Blöndu og skipti engum togum að hann þeyttist út af þjóðveginum og endaði á hvolfi úti í ískaldri ánni. „Það var meiri hálka en ég gerði ráð fyrir og ég hef ekki hugmynd um hvað bíllinn fór margar veltur,“ segir Jóhann. „Ég man þegar bíllinn lenti og var feginn því að hann var að stoppa en hafði ekki tíma til að hugsa um það lengi því hann fylltist strax af vatni. Ég náði að losa beltið og var í raun mjög hissa þegar ég gat náð andanum.“

Slysið var um hádegisbil en það var algjört myrkur inni í bílnum því hann fór á kaf í ána. „Fyrsta sem kom upp í huga minn var að athuga hvort ég kæmist út því ég hafði ekki hugmynd um hvernig ég sneri og var alveg ruglaður,“ segir Jóhann. „Eina hurðin sem ég komst að var farþegahurðin en hún var alveg föst. Ég heyrði eitthvert uml innan um vatnsniðinn og fór að athuga með fólkið. Laufey, konan mín, sat við hliðina á mér og aftur í voru synir okkar tveir, Bjarni Dagur, þriggja ára, og Guðmundur Elí, 16 mánaða, auk Ásrúnar Leósdóttur, nemanda úr Bændaskólanum, sem var á leiðinni heim í jólafrí. Hún svaraði mér þegar ég kallaði aftur í og ég heyrði að alla vega annar strákurinn var að gráta. Hins vegar heyrði ég ekkert í Laufeyju en hún svaraði mér að lokum og sagði mér seinna að þá loks hefði hún verið að koma upp úr vatninu. Hún náði ekki að losa beltið og var við það að hætta að geta haldið niðri í sér andanum.

Lífvana og máttlaus
Jóhann og Laufey fór að athuga nánar með syni sína. „Ásrún var búin að losa Bjarna Dag og sagðist ekki ná Guðmundi Elí því hann væri spenntur fastur í stólinn. Ég sá bara móta fyrir vatninu og hreyfingunni. Stóllinn var á hvolfi og hún náði ekki að losa hann. Ég var orðinn mjög dofinn og búinn að missa mest alla tilfinninguna í fingrunum. Einhvern veginn tókst mér samt að teygja mig aftur í á milli sætanna. Mér fannst ég vera eilífðartíma að ná honum. Það var einna erfiðasta stundin þegar ég náði ekki að losa hann.“

Á einhvern óskiljanlegan hátt tókst Jóhanni það að lokum. „Eftir að ég kom drengnum upp úr vatninu fann ég að hann var alveg máttlaus og lífvana í höndunum á  mér. Eina sem ég gat gert var að dýfa honum aftur ofan í vatnið til að koma honum fram í til mín. Svo hélt ég á honum og reyndi að ná fram viðbrögðum en allt kom fyrir ekki.“

Jóhann hóf þegar í stað lífgunartilraunir  á Guðmundi Elí. „Ég byrjaði að blása í hann eftir bestu getu en munnurinn á honum var fullur af vatni. Ég blés nokkrum sinnum í hann og eftir að hafa blásið í þrjú skipti fór að korra aðeins í honum og hann tók að umla og væla. Þá rétti ég Laufeyju hann og fór að reyna að komast út. Mér fannst langur tími liðinn og við vorum að krókna úr kulda. Ég reyndi að snúa mér við til að spyrna rúðunni út en það var of þröngt til þess að það tækist. Loks náði ég að setja öxlina í hurðina og hún hrökk upp eftir nokkrar tilraunir.

Þakkar æðri máttarvöldum
Þegar Jóhann steig út úr bílnum kom vegfarandi vaðandi út í ána á móti honum. Jóhann rétti honum drenginn og hjálpaði síðan Laufeyju út úr bílnum. Skömmu síðar kom sjúkrabíll á vettvang og fimmmenningarnir voru fluttir á Sjúkrahúsið á Blönduósi. Þyrla Landhelgisgæslunnar flutti Guðmund Elí og Jóhann til Reykjavíkur en samkvæmt óstaðfestum mælingum fór líkamshiti drengsins velundir 30 gráður. Þrátt fyrir að útlitið hafi verið mjög slæmt í fyrstu var Guðmundur Elí útskrifaður með hrein lungu daginn eftir.

„Næstu daga á eftir var maður að upplifa þetta aftur og aftur,“ segir Jóhann. „Það mátti ekki muna nema nokkrum kílómetrum í hraða til að bíllinn hefði farið aðeins lengra út í ána þar sem er dýpra og straumurinn hefði tekið hann. Ég held að það sé óhætt að þakka æðri máttarvöldum að ekki fór verr en gerði.“

Jóhann tók skyndihjálp sem valgrein þegar hann var í 9. bekk grunnskóla og fór á námskeið í skyndihjálp fyrir 10 árum. „Mér finnst mikil upphefð að vera valinn Skyndihjálparmaður ársins en þetta er þekking sem maður vonar að maður þurfi aldrei að nota. Þarna kom berlega í ljós hvers virði hún getur verið. Maður veit aldrei hvað bíður handa næstu beygju.“

Fjölskyldan virðist að mestu vera búin að jafna sig nema hvað Jóhann, sem er organisti á Hólum, er með mjög skerta tilfinningu í fingurgómum.
„Ég fyllist ekki biturð þótt tilfinningin skili sér aldrei aftur,“ segir hann. „Ég fékk það mikið til baka úr þessu slysi.“

Synir Jóhanns og Laufeyjar eru ómetanlegir gimsteinar og sannkölluð kraftaverk því áður en þeir fæddust misstu foreldrar þeirra átta mánaða fóstur og nýbura.