Skyndihjálp

Ofkæling

Ofkæling er það kallað þegar líkaminn kólnar niður og getur ekki lengur viðhaldið réttu hitastigi. Líkamshitinn fellur niður fyrir 35°C við væga ofkælingu en talað er um alvarlega ofkælingu ef hitinn fer niður fyrir 32°C. Algengast er að fólk ofkælist í köldu umhverfi en kuldinn þarf ekki að vera mjög mikill.

Hvað sérðu
Hvað sérðu?
 • Líkaminn skelfur og er fölur og kaldur viðkomu. Einstaklingurinn getur verið með skerta meðvitund og verið hálf ruglaður.
Hvað sérðu
Skyndihjálp
 • Hringdu í Neyðarlínuna 112.
 • Komdu í veg fyrir frekari kælingu og farðu með einstaklinginn í hlýrra umhverfi.
 • Hitaðu einstaklinginn hægt og rólega upp. Breiddu teppi yfir einstaklinginn og ef hann er með meðvitund skaltu gefa honum heitan drykk eða súpu.
Spurningar og svör
 • Hvað er ofkæling?

  Ofkæling er það kallað þegar líkaminn kólnar niður fyrir eðlilegan líkamshita. Það hægir á blóðstreymi um líkamann, sérstaklega til húðarinnar. Fólk getur ofkælst í köldu veðri en ofkæling getur líka átt sér stað í hlýrra umhverfi.

 • Hver eru einkenni ofkælingar?

  Skjálfti og köld, föl og þurr húð. Einstaklingurinn getur verið illa áttaður og of kalt til að skjálfa. Andardráttur verður hægur og grunnur og líkamshiti lægri en 35° C.

 • Hvað má ég gefa ofkældum einstaklingi að drekka og borða?

  Þú mátt gefa honum eitthvað heitt og orkuríkt að drekka svo sem súpu eða heitt kakó. Drykkurinn má ekki vera áfengur eða innihalda koffín. Einstaklingurinn verður að vera með meðvitund.

 • Hvað ef ég er ekki með teppi við höndina?

  Þú getur klætt einstaklinginn í aukaflík eða notað lak, handklæði eða þess háttar til að hlýja honum. Einnig getur þú hlýjað honum með eigin líkamsvarma eða hitapökkum.

 • Hvað á ég að gera ef einstaklingurinn er staddur utandyra?

  Ef einstaklingurinn er úti við skaltu reyna koma honum í skjól inn í hús. Skiptu blautum fötum út fyrir þurr. Þú getur hlýjað viðkomandi með því að vefja plastdúk eða dagblöð utan um hann.

 • Hvernig er best að fyrirbyggja ofkælingu?

  Best er að klæða sig vel, neyta hitaeiningaríkrar fæðu og hreyfa tær, fingur og andlit reglulega.

 • Hvað er kal?

  Mest hætta er á kali á fingrum og tám í miklum kulda, en kal er mun fátíðara en ofkæling. Fingur, tær og aðrir útlimir verða fölir, bláir og tilfinningalausir. Kalinn líkamshluta þarf að verma varlega til dæmis með því að leggja hann í volgt vatn, á meðan beðið er eftir læknisaðstoð. Ekki þíða kalinn líkamshluta ef hætta er á að hann kólni aftur.