Skyndihjálp

Brjóstverkur / Hjartaáfall

Hjartaáfall er afleiðing þess að blóðstreymi til einhvers hluta hjartans minnkar skyndilega eða stöðvast. Skjót greining og rétt viðbrögð eru forsenda þess að einstaklingur haldi lífi og nái viðunandi bata.

Hvað sérðu
Hvað sérðu?
 • Einstaklingurinn getur fengið viðvarandi verk, þrýsting eða tak fyrir brjóstið eða skyndileg og óútskýrð óþægindi í handlegg, hálsi, baki, kjálka eða kvið.
 • Einnig getur hann fundið fyrir óþægindum fyrir brjósti, oft fylgir svimi, yfirlið, ógleði, sviti og mæði. Verkurinn orsakast af þrengingum í æðum sem flytja blóð til hjartavöðvans og getur komið fram jafnt í hvíld sem eftir hreyfingu. Verkurinn hverfur ekki við hvíld eða lyfjatöku.
Hvað sérðu
Skyndihjálp
 • Hringdu strax í Neyðarlínuna 112 eða fáðu annan til þess að hringja.
 • Gefðu einstaklingnum magnýl/aspirín ef hann hefur ekki ofnæmi fyrir því. Best er að gefa töflu sem er ekki húðuð.
 • Hjálpaðu einstaklingnum í þægilega stöðu, láttu hann setjast í stól eða á gólf eða styðja sig við vegg. Þetta minnkar álagið á hjartað. Ef einstaklingurinn sest á gólfið minnka líkurnar á því að hann meiði sig ef hann missir meðvitund.
 • Hughreystu einstaklinginn á meðan þið bíðið eftir sjúkrabílnum og fylgstu vel með ástandi hans.
 • Byrjaðu endurlífgun ef viðkomandi missir meðvitund og hættir að anda.
Spurningar og svör
 • Hvað er hjartaáfall?

  Hjartaáfall verður þegar blóðið nær ekki að flæða eðlilega til hjartavöðvans vegna skyndilegrar stíflu í æðum. Hjartað starfar þá ekki eðlilega. Hjartaáfall getur leitt til hjartastopps og dauða. Alvarleiki hjartaáfalls fer eftir því hversu stórt svæði í hjartanu hefur orðið fyrir skaða.

 • Hver er munurinn á hjartaáfalli og hjartastoppi?

  Hjartaáfall verður þegar blóðflæði til hjartavöðvans minnkar skyndilega, hjartað getur pumpað blóði en afkastagetan skerðist. Við hjartastopp stöðvast hjartað, einstaklingurinn hnígur niður, missir meðvitund, svarar ekki áreiti og hættir að anda. Hjartaáfall getur valdið hjartastoppi. Fylgdu tenglinum sem er neðst á síðunni til þess að sjá hvernig hægt að er hjálpa meðvitundarlausum einstaklingi sem ekki bregst við áreiti og andar ekki eðlilega.

 • Hvernig get ég vitað hvort einstaklingurinn er með hjartaáfall?

  Einkenni hjartaáfalls eru mismunandi en þau geta verið: Verkur fyrir brjósti (eins og í skrúfstykki) sem getur leitt út í handlegg, upp í háls og kjálka, aftur í bak og niður í kviðinn en stundum er verkurinn bara í einum líkamshluta, andþyngsli og mæði, vanlíðan eða sviti.

 • Hvað á ég að gera ef einstaklingurinn er með lyf sem hann á að nota?

  Ef einstaklingurinn er með töflur eða úða við höndina aðstoðaðu hann þá við að taka lyfið.

 • Má ég gefa einstaklingnum magnýl/ aspirín?

  Þú getur boðið einstaklingnum að tyggja magnýltöflu rólega, það þynnir blóðið. Ekki er ráðlagt að gefa meira ein 300 mg í einum skammti. Best er að gefa óhúðaða töflu.

 • Hvað á ég að gera ef einstaklingurinn missir meðvitund og hættir að anda?

  Veittu aðstoð eins og um meðvitundarlausum einstaklingi sem andar óeðlilega sé að ræða og byrjaðu hjartahnoð.

 • Hvað er hjartaöng / hjartakveisa?

  Hjartaöng lýsir sér sem samanherpandi tilfinning í brjóstholinu. Einkennin koma fram þegar kransæðarnar geta ekki flutt nægjanlega mikið blóð til hjartans vegna þrenginga í kransæðunum. Þetta gerist einkum við líkamlega áreynslu eða andlega streitu. Einkennin eru meðal annarra verkur fyrir brjósti og andþyngsli. Ólíkt því sem gerist þegar einstaklingur fær hjartaáfall þá hverfur verkurinn oftast í hvíld eða þegar einstaklingurinn tekur lyfin sín. Lyf sem notuð eru við hjartaöng eru í töflu- eða úðaformi.