Skyndihjálparmaður ársins 2017

Jónas Már Karlsson

Jónas starfar sem kokkur hjá fyrirtæki sem keyrir út heitan mat, m.a. til ýmissa eldri borgara í Hafnarfirði. Þennan dag er Jónas tiltölulega nýlagður af stað með fullan bíl af matarsendingum þegar hann hringir bjöllunni hjá eldri konu. Hún er sein til svara, sem er ekki óalgengt, en þegar hún loksins opnar fyrir honum bendir hún strax á hálsinn ár sér og það rymur í henni. Hún sýnir honum með látbragði í anddyrinu hjá sér að það þurfi að slá á bakið á henni, en kemur ekki upp stöku orði. Hann leggur frá sér matinn og hefst handa við að slá hana á bakið. Ekkert gekk og hann áttaði sig á því að ef hann ætti að ná bitanum úr hálsi konunnar þyrfti hann að beita kröftum. Hann tók utan um hana aftan frá og þrýsti fast, eða beitti svokallaðri heimlich aðferð. Konan var orðin mjög máttfarin þegar þarna var komið við sögu.

Jónas náði að losa örlítið um bitann sem stóð fastur í konunni og heyrði soghljóð þegar opnaðir lítillega fyrir öndun. Bitinn fór þó ekki allur út og Jónas áttaði sig á því að hann myndi ekki að ná miklu meira upp úr henni og hringdi því á sjúkrabíl. Hann beið með konunni uns sjúkrabíllinn kom og sjúkraflutningamenn tóku við.

Jónas hélt vinnu sinni áfram og velti atvikinu kannski ekki mjög mikið fyrir sér enda beið fullur bíll af mat sem þurfti að koma til skila. Það var síðan daginn eftir þegar aðstandendur konunnar höfðu samband við hann og sögðu honum frá því að hún hefði þurft að fara á bráðadeildina til þess að hægt væri að losa bitann alveg úr hálsinum á henni sem hann gerði sér grein fyrir alvarleika málsins og hversu heppinn þau bæði voru að hann hefði verið þarna akkúrat á þessum tíma. Hann er þakklátur fyrir að hafa beðið eftir að hún svaraði því annars væri ljóst hvernig þetta hefði getað endað.

Jónas starfaði sem þjónn í 20 ár og veit ekki hversu oft hefur hrokkið ofan í fólk þegar hann hefur verið við störf, en aldrei þannig að biti náist ekki úr. Hann hefur tekið skyndihjálparnámskeið reglulega síðan hann var 16 ára og fór síðast í fyrra þegar hann var á björgunarnámskeiði fyrir sportkafara. Það var ekki skylda að taka skyndihjálparnámskeið á björgunarnámskeiðinu en hann er afar þakklátur að hafa tekið þá ákvörðun að rifja upp rétt viðbrögð svo nýlega, en mælst er til þess að fólk fari á a.m.k. tveggja ára fresti á skyndihjálparnámskeið til að rifja upp kunnáttu sína og handtök.

Það var samdóma álit dómnefndar að Jónas Már Karlsson hefði sýnt hárrétt viðbrögð í þessum aðstæðum, byrjað á því að reyna að veita konunni hjálp en hringt síðan á sjúkrabíl þegar honum varð ljóst að hann gæti ekki klárað verkið einn.

Vinnustaður Jónasar hefur rætt um að halda skyndihjálparnámskeið eftir atvikið.

Jónas fékk afhent viðurkenningarskjal, iPhone Red frá Nova, 12 tima skyndihjálparnámskeið fyrir 2, skyndihjálpartösku auk veglegs blómvandar í Efstaleitinu í 21. febrúar 2018.