Skyndihjálparmaður ársins 2015

Karen Sæberg Guðmundsdóttir

Hin 7 ára gamla Karen Sæberg Guðmundsdóttir varð fyrir valinu, Skyndihjálparmaður ársins 2015. Hún hlaut viðurkenninguna við hátíðlega athöfn á 1-1-2 daginn sem haldin var í húsi Neyðarlínunnar í Skógarhlíð.

Karen Sæberg bjargaði lífi móður sinnar, Margrétar Sæberg Þórðardóttur, í fyrrasumar þegar Margrét, sem er flogaveik, fékk flog í heitum potti. Karen var snögg til og lyfti höfðinu á móður sinni upp úr vatninu, sendi 5 ára vin sinn sem var þarna hjá þeim til að sækja föður sinn, eiginmann Margrétar, og hélt henni á floti þar til hann gat tekið við.

Karen stóð sig svo sannarlega vel og er vel að þessari viðurkenningu komin. Það er svo gaman að segja frá því að samkvæmt Margréti er Karen dugleg að horfa á Hjálpfús þættina sem sýndir voru í Stundinni okkar fyrir nokkrum árum í samvinnu Rauða krossins og Rúv.