Skyndihjálparmaður ársins 2014

Valskonur

Það er Rauða krossinum mikið gleðiefni að veita þeim Önnu Úrsúlu Guðmundsdóttur og leikmönnum meistarafokks kvenna í handbolta hjá Val, viðurkenningu sem skyndihjálparmenn ársins 2014 fyrir einstakt björgunarafrek.

Rauði krossinn á Íslandi útnefnir árlega skyndihjálparmann ársins í tilefni 1-1-2 dagsins sem er ætlað að kynna mikilvægi neyðarnúmersins 112 og hvernig neyðarlínan nýtist almenningi. Rauði krossinn fær þann heiður að útnefna skyndihjálparmann ársins við tilefnið.

Guðmundur Helgi Magnússon, 56 ára gamall Valsmaður, var einu sinni sem oftar að skokka í kringum áhorfendapalla Vodafone-hallarinnar að Hlíðarenda síðastliðið vor. Á sama tíma var að hefjast æfing hjá meistaraflokki kvenna í handbolta. Þegar æfingin var í þann mund að hefjast tekur Anna Úrsúla eftir því að Guðmundur virðist missa meðvitund og fellur til jarðar. Hann rak um leið höfuðið í vegg svo úr blæddi. Stefán Arnarsson, þjálfari, lýsir því hvernig Anna tók þá mikið „gasellustökk“ yfir áhorfendapallana og tók þegar að athafna sig við Guðmund og kallaði á hjálp. Samhæfingin og liðsheildin var greinilega til staðar því á svipstundu fengu allar konurnar sitt hlutverk, ein hringdi í neyðarlínuna, ein náði í hjartastuðtæki, ein byrjaði að hnoða og ein skar bolinn utan af Guðmundi svo hefja mætti endurlífgun með hjartastuðtæki.

Þegar sjúkraliðar mættu á vettvang var Guðmundur kominn með púls en hann byrjaði að ranka við sér í sjúkrabílnum. Það er fyrst og fremst Valskonum að þakka að Guðmundur er á lífi í dag og einnig að hjarta hans hlaut lítinn sem engan skaða.

Svona sagði Stefán Arnarsson, þáverandi þjálfari Vals, frá afrekinu í grein sem birtist á dv.is:

„Maðurinn sem missti meðvitund var og er mjög virtur innan hópsins og þ.a.l. var björgunin mjög tilfinningamikil og hafði mikil áhrif á hópinn.“

Stefán lýsir því hvernig Anna Úrsúla Guðmundsdóttir, leikmaður Gróttu og þáverandi leikmaður Vals, Rebekka Rut Skúladóttir, leikmaður Vals, og fleiri björguðu lífi manns sem hneig niður uppi á svölum á meðan á æfingu Valskvenna stóð í Vodafone-höllinni á síðasta ári. Stefán rifjar atvikið upp í tilefni af áramótunum en hann segir þennan atburð standa upp úr á árinu.

„Ég varð vitni að mikilli hetjudáð, það var æfing hjá mér og þegar æfingin er ný hafin verður Anna Úrsula vör við að maður sem var að hlaupa uppi á svölum hnígur niður,“ segir Stefán.

„Anna tók mikið Gasellu stökk og var komin upp á nokkrum sekúndum, hún kallar á liðsfélaga sína að kalla á hjálp. Rebekka Rut hljóp þá upp ásamt fleirum og fóru þær að aðstoða Önnu. Þegar ég kom upp var maðurinn meðvitundarlaus og var farinn að blána. Stelpurnar byrjuðu að hnoða og Rebekka Rut stuðaði einstaklinginn sem leiddi til þess maðurinn komst til meðvitundar um svipað leyti og sjúkrabíllinn mætti á staðinn,“ segir hann.

Að sögn Stefáns er mesti sigur í lífinu að bjarga mannslífi.

„Það er hefð sem fylgir áramótum að velja mann eða konu ársins, hjá mér er valið einfalt, Anna Úrsula, Rebekka Rut og þeir leikmenn sem komu að björguninni eru menn ársins að mínu mati,“ segir Stefán.