Skyndihjálparmaður ársins 2013

Bylgja Dögg Sigurðardóttir

Rauði krossinn á Íslandi hefur valið Bylgju Dögg Sigurðardóttur sem Skyndihjálparmann ársins 2013 fyrir að sýna hárrétt viðbrögð þegar hún kom að bifreið með hættuljósin á sem lagt hafði verið í vegkanti í Seljahverfi í Breiðholti. Ungur maður sem var farþegi í bifreiðinni fór í hjartastopp, og á líf sitt að launa þeirri meðvituðu ákvörðun Bylgju að stöðva alltaf þegar hún sér fólk í vanda til að athuga hvort hún geti orðið því að liði.

Viðurkenningin var veitt í húsi Rauða krossins í dag 9. Febrúar, og er um sérstakan viðhafnarviðburð að ræða, þar sem félagið fagnar 90 ára afmæli sínu á þessu ári. Á þessum tímamótum þykir við hæfi að bjóða þeim útnefndir hafa verið skyndihjálparmenn Rauða krossins á síðustu 14 árum og þeim sem bjargað hefur verið að samgleðjast með Skyndihjálparmanni ársins 2013. Þá hljóta einnig þrír aðrir einstaklingar viðurkenningu fyrir að hafa brugðist rétt við á neyðarstundu.

Í lok október fékk Patrekur Maron Magnússon, háskólanemi á fyrsta ári í verkfræði, einu sinni sem oftar far með skólasystur sinni í Seljahverfið. Patrekur hugðist fara úr bílnum á miðri leið, og ganga heim til sín hluta leiðarinnar. Hann teygði sig eftir skólatöskunni, og datt þá skyndilega út og reisti sig ekki aftur. Vinkona hans nam staðar og lagði út í kant, setti hættuljósin á og hringdi á Neyðarlínuna, en taldi að hann hefði fengið flogakast.

Af hreinni tilviljun var Bylgja á ferðinni á þessum tíma með börnin sín tvö, og sá að stúlka hafði lagt upp í kant og var að tala í símann. Hún ákvað að bjóða fram aðstoð sína, og stúlkan sagði henni að vinur hennar væri í flogi í framsætinu. Bylgja sá strax að það var ekki rétt, hann hafði alveg misst lit og virtist líflaus. Hún ákvað að hún yrði að ná honum út úr bílnum, og leggja hann upp á grasið og hefja endurlífgun.

Bylgja notaði tak sem hún hafði lært af pabba sínum og reyndi að draga Patrek út. Fótur hans festist í eða undir bílnum, svo hún reyndi að stöðva bíla og fá hjálp, en var hissa á hversu margir keyrðu fram hjá. Að endingu stöðvuðu hjón, og maðurinn hjálpaði Bylgju að leggja Patrek í grasið, og hún bað konuna að huga að börnunum tveimur sem biðu í bílnum. Bylgja hóf þegar að hnoða, og var þá komin í samband við neyðarvörðinn á Neyðarlínunni og gat greint honum frá gangi mála.

Bylgja, sem er einungis 24 ára en hefur oft farið á skyndihjálparnámskeið, lét eðlishvötina ráða og einbeitti sér að því að hnoða þar til hjálp barst í stað þess að stoppa og blása á milli. Fleiri vegfarendur voru þá komnir á vettvang, og hún segir að eldri maður hafi hvatt hana áfram þegar hún efaðist um hvort hún væri með réttu handtökin. Sjö mínútur liðu þar til lögregla kom á vettvang og tók við endurlífguninni, og sjúkrabíll fylgdi í kjölfarið.

Bylgja var beðin um að fylgja vinkonu Patreks á sjúkrahúsið, og þar tók lögregla skýrslu af henni um atburðinn. Fjölskylda Patreks setti sig svo í samband við hana og flutti henni fréttir af líðan hans, sem hún segir hafa skipt sig miklu máli.

Patrekur var þrjár vikur á hjartadeild Landspítalans, og fékk bjargráð stuttu síðar. Hann hefur náð sér ótrúlega vel eftir atburðinn, fór í tilsett próf í Háskólanum í desember, og er í fullu námi í skólanum. Fjölskylda Patreks bauð Bylgju í heimsókn um jólin, og eru þau í góðu sambandi.

Óhætt er að segja að þetta atvik sé um margt óvanalegt. Patrekur á sér enga sögu um hjartasjúkdóma, er í góðu formi og sjaldgæft að svo ungur maður fari í skyndilegt hjartastopp. Þá er afstaða Bylgju um að koma náunga sínum ávallt til hjálpar til mikillar eftirbreytni og frábært að þessi unga kona skuli hafa tekið meðvitaða ákvörðun um að sýna samfélagslega ábyrgð í verki. Þrátt fyrir ungan aldur hefur Bylgja farið á fjölmörg skyndihjálparnámskeið, sem án efa skiptu sköpum fyrir Patrek þennan eftirmiðdag í október.

Í könnun um skyndihjálp sem gerð var á vegum Rauða krossins í haust kom fram að af þeim sem hafa sótt námskeið á síðustu 3 árum eru 85% sem treysta sér til að veita skyndihjálp, en ef lengra er um liðið frá námskeiði lækkar hlutfall þeirra sem myndi treysta sér til að veita skyndihjálp niður í um 65%.

Þrír aðrir einstaklingar hljóta einnig viðurkenningu Rauða krossins í dag fyrir að hafa beitt skyndihjálp og bjargað lífi á eftirtektarverðan hátt. Þeir eru: Heiðar Arnfinnsson, Mosfellsbæ, sem bjargaði tengdaföður sínum eftir að hann féll við byggingu sumarbústaðar við Meðalfellsvatn og hrygg- og hálsbrotnaði; Heimir Hansson og Sveinbjörn Björnsson, Ísafirði, sem hnoðuðu lífi í nágranna sinn eftir að hann fór í hjartastopp við snjómokstur; og Jóhanna Guðmundsdóttir búsett í Flórída, sem kom konu til aðstoðar eftir að hún fór í hjartastopp rétt fyrir jólin í konuboði í Skerjafirðinum.

Myndir frá athöfninni eru á facebook síðu Rauða krossins