Skyndihjálparmaður ársins 2012

Arnar Hugi Birkisson

Rauði krossinn á Íslandi hefur valið Arnar Huga Birkisson sem Skyndihjálparmann ársins 2012 fyrir einstaka hugvitssemi og að sýna hárrétt viðbrögð á slysstað þegar hann varð vitni að útafkeyrslu á Steingrímsfjarðarheiði fjarri byggð í fyrrasumar. Viðurkenning Rauða krossins var veitt í Samhæfingarstöðinni í Skógarhlíð í dag 11. febrúar á hátíðardagskrá Neyðarlínunnar og samstarfsaðila um 112-daginn.

Arnar var á ferð ásamt kærustu sinni Steinunni Hlíf Guðmundsdóttur á Steingrímsfjarðarheiði þegar bíll tók fram úr þeim og þau urðu vitni að því að hann náði ekki beygju heldur fór fram af veginum og hvolfdi, valt hring en lenti svo aftur á dekkjunum.

Arnar stöðvaði bíl sinn, bað Steinunni að hringja í 112 og setja upp þríhyrning til að vara aðra við. Arnar kannaði meðvitund þeirra sem voru í bílnum með því að hrópa og klappa saman lófum. Eftir svolitla stund sýndi farþegi í aftursæti viðbrögð og stuttu seinna byrjaði ung kona sem sat í framsætinu að anda. Ökumaður bærði hinsvegar ekki á sér, og einbeitti Arnar sér því fyrst að því að aðstoða hann. Með lélegum verkfærum tókst honum að losa öryggisbelti ökumannsins að hluta, en þá fór konan að kvarta yfir að ná ekki andanum.

Arnar sneri sér því að konunni sem var mjög aðþrengd þar sem bílbeltið var neglt fast við hana og farþeginn í aftursæti hafði kastast yfir á hana við höggið. Arnar sýndi þá einstaka hugvitssemi þegar hann fann glerkrukku í bílnum sem hann braut og náði að sarga beltið í sundur með brotinu svo að hún ætti auðveldara með að anda. Steinunn aðstoðaði hinn farþegann og hélt honum rólegum í bílnum. Arnar drap á bílnum til að koma í veg fyrir að kviknaði í.

Um 14 mínútum síðar kom annar bíll á vettvang, og þar fékk Arnar vasahníf og náði að losa ökumanninn alveg úr beltinu. Arnar hóf að reyna endurlífgun ásamt þeim sem komu að, en fljótt varð ljóst að ökumaðurinn hafði ekki lifað slysið af. Stuttu síðar kom lögregla á staðinn og tók við stjórn. Það tók sjúkraflutningamenn um 18 mínútur að koma á vettvang, en neyðarlínan studdi vel við Arnar og Steinunni á meðan.

Farþegarnir í bílnum voru ungt par frá Kanada, Jonathan Boilard og Emilie Beaule, sem höfðu einungis verið 3 daga á Íslandi og voru að ferðast á puttanum. Þau voru bæði flutt með þyrlu til Reykjavíkur á sjúkrahús, og var þeim vart hugað líf fyrst um sinn. Ljóst er að snarræði Arnars við að losa um bílbelti konunnar og gera henni fært að anda, og það að róa niður manninn sem var hryggbrotinn, varð þeim til lífs. Þeim hefur þó tekist með mikilli endurhæfingu að ná sér að mestu, en Jonathan er þó bundinn við hjólatól. Pörin tvö hafa síðan verið í góðu sambandi og vinfengi tekist með þeim.

Skyndihjálparmaður ársins, Arnar Birkisson, er staddur í útlöndum og gat því ekki tekið á móti viðurkenningunni.

Þetta er í tólfta sinn sem Rauði krossinn velur Skyndihjálparmann ársins. Viðurkenninguna hlýtur sá einstaklingur sem hefur á árinu veitt skyndihjálp á eftirtektarverðan hátt. Sérstök dómnefnd er kölluð til að skera úr um hver hlýtur viðurkenninguna ár hvert en hana skipa fulltrúar frá Rauða krossinum á Íslandi, Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu, Neyðarlínunni, Landsspítala háskólasjúkrahúsi, lögreglunni, og Landssambandi slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna.

Tilgangur tilnefningarinnar er ekki síður að hvetja aðra til að læra skyndihjálp og vera þar af leiðandi hæfari til að veita aðstoð á vettvangi slysa og áfalla. Í flestum tilfellum þegar beiting skyndihjálpar hefur bjargað lífi fólks gerist það við aðstæður sem eru hluti af daglegu lífi. Oftar en ekki er það einhver nákominn sem þarf á aðstoð að halda.

Sjö aðrir einstaklingar hljóta einnig viðurkenningar hjá deildum Rauða krossins fyrir að hafa beitt skyndihjálp og bjargað lífi á eftirtektarverðan hátt. Þeir eru: Anika Mjöll Júlíusdóttir, 11 ára sundkona, sem bjargaði eins árs stúlku frá drukknun í Vatnaveröld í Reykjanesbæ; Kristján Ingi Kristjánsson, Reykjavík, fyrir að hafa hnoðað og blásið lífi í konu á bílaplani N1 í Hveragerði þar sem hann var staddur með fjölskyldu sinni í sunnudagsbíltúr; Kristín Harðardóttir, Reykjavík, sem bjargaði eiginmanni sínum á heimili þeirra þegar hann lenti í hjartastoppi; Kári Kárason og sonur hans Pétur Arnar, Blönduósi, fyrir að bjarga ökumanni frá drukknun þegar bíll hans valt við brúarvegrið og festist á hvolfi ofan í á; og Grétar Guðmundsson og Steingrímur S. Stefánsson, Akureyri, sem björguðu starfsfélaga sínum við Sláturhúsið þegar hann lenti í hjartastoppi með því að hnoða og blása í hann lífi.

Jónas Birkisson, bróðir Arnars Huga, flutti ræðu þegar val á Skyndihjálparmanni ársins 2012 var kunngert.