Skyndihjálparmaður ársins 2008

Magnús Þór Óskarsson

Rauði kross Íslands hefur valið Magnús Þór Óskarsson bifvélavirkja í bifreiðarskoðuninni Frumherja sem Skyndihjálparmann ársins 2008 fyrir hárrétt viðbrögð á neyðarstundu. Magnúsi Þór var veitt viðurkenning Rauða krossins í Samhæfingarstöðinni Skógarhlíð í dag á hátíðardagskrá Neyðarlínunnar og samstarfsaðila um 112- daginn.

Magnús vann það þrekvirki að bjarga Hannesi Ragnarssyni sem kramdist milli tveggja bifreiða á bílastæði við Frumherja í ágúst á síðasta ári.

Hannes hafði skilið bifreið sína eftir í gangi. Hann ætlaði að teygja sig inn í bílinn til að drepa á honum en virðist þá hafa rekið sig í sjálfskiptinguna og sett bílinn í bakkgír. Hannes var þá hálfur inni í bílnum. Bíllinn bakkaði á fullri ferð og lenti Hannes milli eigin bifreiðar og bílsins fyrir aftan. Við áreksturinn fór hurðin af með miklum látum og Hannes skellur þá út úr bílnum og lendir á milli bifreiðanna.

Símastúlka í Frumherja varð vör við slysið og kallaði eftir hjálp Magnúsar og hringdi á Neyðarlínuna. Þegar Magnús kom að var Hannes hættur að anda. Hann var stórslasaður á brjóstkassa, mjaðmakúla úr lið, lungun fallin saman og nýra var í lamasessi.

Magnús gat komist að Hannesi með því að fara inn um hægri framhurðina og náði að blása í Hannes úr bílstjórasætinu þar til hjálp barst.

Þetta er í áttunda sinn sem Rauði krossinn velur Skyndihjálparmann ársins. Viðurkenninguna hlýtur sá einstaklingur sem hefur á árinu veitt skyndihjálp á eftirtektarverðan hátt. Tilgangur tilnefningarinnar er ekki síður að hvetja aðra til að læra skyndihjálp og vera þar af leiðandi hæfari til að veita aðstoð á vettvangi slysa og áfalla. Þess má geta að Magnús hefur farið nokkrum sinnum á námskeið í skyndihjálp, meðal annars á vegum vinnu sinnar.

Rauða krossinum hefur aldrei borist eins margar tilnefningar og fyrir árið 2008, og voru björgunarafrekin eins fjölbreytt og þau voru mörg. Sérstök dómnefnd er kölluð til að skera úr um hver hlýtur viðurkenninguna en hana skipa fulltrúar frá Rauða krossi Íslands, Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu, Neyðarlínunni, Landsspítala háskólasjúkrahúsi, lögreglunni, og Landssambandi slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna.

Þó aðeins einn sé útnefndur Skyndihjálparmaður ársins er hver og einn sem tilnefndur er hversdagshetja sem bjargað hefur mannslífi. Í flestum tilfellum var það við aðstæður sem eru hluti af daglegu lífi við vinnu eða inni á heimilinu – aðstæður sem hver og einn gæti hæglega lent í.

Eftirfarandi deildir Rauði kross Íslands veita einnig viðurkenningar fyrir skyndihjálparafrek á árinu 2008: Akureyrardeild, Árnesingadeild, Borgarfjarðardeild, Grindavíkurdeild, Kópavogsdeild og Norðfjarðardeild.