Skyndihjálparmaður ársins 2006

Egill Vagn Sigurðsson

Rauði kross Íslands hefur valið Egil Vagn Sigurðsson sem Skyndihjálparmann ársins 2006 fyrir rétt viðbrögð á neyðarstundu. Egill Vagn tók við viðurkenningunni í dag, sunnudaginn 11. febrúar, kl. 13:20 við athöfn í Smáralind sem viðbragðsaðilar í björgun og almannavörnum standa að í tilefni af 112-deginum.

Egill Vagn sem er einungis 8 ára bjargaði lífi móður sinnar í júní í fyrra þegar hún hneig niður á heimili þeirra og missti meðvitund vegna bráðaofnæmis. Egill Vagn brást skjótt við og sótti adrenalínpenna í veski móður sinnar og sprautaði hana í handlegginn en hringdi síðan í neyðarlínuna 112 eftir hjálp. Hann fór svo eftir fyrirmælum neyðarvarðar þar til sjúkrabíll kom á staðinn.

Egill Vagn hikaði hvergi og bar sig í öllu rétt að þrátt fyrir ungan aldur. Það var móður hans til lífs að hún hafði rætt við hann um hvað þyrfti að gera ef eitthvað kæmi fyrir sig og að hann vissi hvar adrenalínpennann var að finna og hvernig ætti að nota hann.

Viðbrögð Egils Vagns ættu að vera hvatning fyrir alla aðstandendur þeirra sem kljást við króníska sjúkdóma á borð við sykursýki, flogaveiki, bráðaofnæmi og ýmsa hjartakvilla til að læra skyndihjálp. Mikilvægt er að allir sem eru í daglegri umgengni við fólk með slíka sjúkdóma kunni að bregðast við alvarlegu ástandi. Hafi fólk undirstöðuþekkingu í skyndihjálp er auðveldara að bregðast fumlaust við þegar mínútur og jafnvel sekúndur geta skipt sköpum.

Þetta er í sjötta sinn sem Rauði kross Íslands útnefnir Skyndihjálparmann ársins. Viðurkenninguna hlýtur sá einstaklingur sem hefur á árinu veitt skyndihjálp á eftirtektarverðan hátt. Tilgangur tilnefningarinnar er ekki síður að hvetja aðra til að læra skyndihjálp og vera þar af leiðandi hæfari til að veita aðstoð á vettvangi slysa og áfalla.

Þó aðeins einn sé útnefndur Skyndihjálparmaður ársins er hver og einn sem tilnefndur er hversdagshetja sem bjargað hefur mannslífi. Í flestum tilfellum var það við aðstæður sem eru hluti af daglegu lífi, aðstæður sem hver og einn gæti hæglega lent í.

Rauði kross Íslands veitir einnig eftirtöldum einstaklingum viðurkenningu fyrir skyndihjálparafrek á árinu 2006: Andreu Jónheiði Ísólfsdóttir, fyrir að hafa hnoðað og blásið lífi í 2 ára stúlku sem dottið hafði ofan í tjörn, Finni Leó Haukssyni, fyrir að losa aðskotahlut úr öndunarvegi þriggja ára systur sinnar þegar brjóstsykur stóð í henni á aðfangadagskvöld, Gauta Grétarssyni, fyrir að bjarga 17 ára stúlku sem missti meðvitund og fór í hjartastopp á handboltaleik með því að beita hjartahnoði og blása í hana lífi, Lilju Dóru Michelsen, fyrir að blása lífi í ungabarn í andnauð fyrir utan matvöruverslun í Hafnarfirði, og Ríkharð Owen. Ríkharð kom að manni sem fengið hafði hjartáfall í bíl sínum á Reykjanesbrautinni, hringdi í Neyðarlínuna 112, hnoðaði manninn í 20 mínútur þar til lífsmark greindist og sérhæfð aðstoð barst.