Skyndihjálparmaður ársins 2002

Sindri Róbertsson

Sindri Róbertsson, sextán ára námsmaður frá Breiðdalsvík, hlaut viðurkenningu Rauða kross Íslands sem Skyndihjálparmaður ársins 2002. Jafnframt hlutu sjö aðrir einstaklingar sem komu að tveimur slysum á árinu 2002 sérstakar viðurkenningar fyrir framgöngu sína á slysstað.

Sindri fékk viðurkenninguna fyrir frækilega björgun 18 mánaða systur sinnar frá drukknun, en hún hafði fallið í tjörn í húsgarði á Breiðdalsvík í lok júlí 2002. Sindri brást við með því að blása í systur sína og beita hana hjartahnoði þar til sérhæfð aðstoð barst. Með framgöngu sinni bjargaði hann lífi hennar.

Sjö einstaklingum var veitt viðurkenning auk Sindra, Sigurði G. Ragnarssyni, Sigurði Skúlasyni, Pétri Ottesen, Guðmundi Jens Knútssyni, Sigmundi Felixsyni, Jónu Guðrúnu Baldursdóttur og Árna Rúnari Baldurssyni  fyrir veitta aðstoð á vettvangi bílslyss í Hólmsá 29. nóvember 2002, og Svani Tómassyni sem bjargaði lífi föður síns þegar grafa hans fór út í sjó við Ólafsvíkurenni 11. nóvember 2002. Þess má geta að Jóna Guðrún og Árni Rúnar voru farþegar í bílnum sem fór í Hólmsá.

Mikilvægi þekkingar í skyndihjálp
Veitt er viðurkenning fyrir að beita réttum aðferðum á slysstað og bjarga þannig lífi eða koma í veg fyrir alvarlegri afleiðingar slyss.

Viðurkenningin er veitt í samstarfi við tímaritið Séð og heyrt, sem hefur tekið að sér að kynna aðferðir í skyndihjálp fyrir almenningi. Viðstaddir athöfnina voru fulltrúar landlæknis, heilbrigðis-og tryggingamálaráðuneytis, Neyðarlínu, lögreglu, slökkviliðs og slysa- og bráðadeildar Landspítala-háskólasjúkrahúss