Skyndihjálparmaður ársins 2003

Kolfinna Baldursdóttir og Sigrún Magnúsdóttir

Tvær tíu ára stúlkur úr Garðinum hlutu viðurkenningu Rauða kross Íslands sem skyndihjálparmenn ársins 2003 fyrir að bjarga lífi lítils drengs. Stúlkurnar, Kolfinna Jóna Baldursdóttir og Sigrún Guðbjörg Magnúsdóttir fengu viðurkenninguna fyrir frækilega frammistöðu og að sýna mikla hetjulund þegar Atli Reynir, 6 ára bróðir Kolfinnu, skarst illa á upphandlegg svo að slagæð fór í sundur.

Stúlkurnar voru ákveðnar í að koma drengnum til aðstoðar. Þær hringdu í Neyðarlínuna, 112, létu drenginn setjast niður, vöfðu handklæði um handlegginn á honum og þrýstu að sárinu þar til hjálp barst.

Stúlkurnar tvær höfðu lært nokkrar aðferðir í skyndihjálp í skátastarfi, meðal annars að stöðva blæðingu. Þær höfðu einnig lært neyðarnúmerið 112 í skólanum. Það fer ekki á milli mála að með þessum aðgerðum björguðu þær lífi Atla Reynis.

Rauði kross Íslands útnefnir árlega skyndihjálparmann ársins í því skyni að hvetja almenning til að læra skyndihjálp. Þekking á einföldum handbrögðum getur bjargað mannslífum þegar á reynir.