Skyndihjálparlagið

Skyndihjálparlagið

Margar eru hætturnar sem hafa ber
í huga meðan lífið okkur framhjá fer.
Staðreyndin er sú að allt sem getur gerst
gerist – og það gerist þegar von á síst er.Þess vegna er alltaf gott að gá að sér
en geta líka bjargað þegar einhver er
í meiriháttar klípu eða merst og skerst,
mannslíf eru dýrmæt – það er eitt sem víst er.

Endurlífgun:
Til dæmis ef einhver hefur mikið misst
meðvitund er nauðsynlegt að hringja fyrst!
Kanna síðan öndunina, kalla hátt,
kom’onum í flýti út úr þessum voða.

Þetta’ eru’ ekki vísindi’ eða vönduð list
verið ekki hrædd um að það mistakist.
Þar til að við heyrum nýjan hjartaslátt
höldum við því áfram bara’ í takt að hnoða.

Viðlag:
Því að við verðum …
jú skárra fólk þegar við skerumst í leikinn
í skyndi hjálpum – en hvað gerum við svo?
Könnum aðstæður og hratt við hreykin
hringjum í einn, einn, tvo.

Bruni:
Gríðarlega margt er það sem getur hent,
grandalausir hafa jafnvel í því lent
að hafa sig svo agalega illa brennt
að það þarf að kæla þá með vatni’ í hasti.Ekki setja plástur eða annað sem
áverkana stækkar, eða smjör og krem.
Sjáðu bara’ um kælingu á „sjö plús þrem“,
sjúklinginn svo vefja skaltu hreinu plasti.

Viðlag:
Því að við verðum …
jú skárra fólk þegar við skerumst í leikinn
í skyndi hjálpum – en hvað gerum við svo?
Könnum aðstæður og hratt við hreykin
hringjum í einn, einn, tvo.

Aðskotahlutur í hálsi:
Svo þegar eitthvað festist, fast í koki
fluga eða svið.
Er ekki fátítt að sá fjandi loki
fyrir súrefnið.

Við skulum vera snögg og varast kvíðann,
velja góðan stað
aftan á bakinu og berja síðan
býsna fast á það.

Blæðing:
Slysin gera aldrei boð á undan sér
ólukkan hún getur lent á mér og þér.
Maður kannski bara rekst á mávager
og missir við það útlim eða rífur vöðva.Okkar er að varna því að verði flóð
og viðfangsefnið missi alltof mikið blóð.
Þrýstum á og bindum um af miklum móð,
meiriháttar blæðingu þarf strax að stöðva.

Viðlag:
Því að við verðum …
skárra fólk þegar við skerumst í leikinn
í skyndi hjálpum – en hvað gerum við svo?
Könnum aðstæður og hratt við hreykin
hringjum í einn, einn, tvo.

Skárra fólk þegar við skerumst í leikinn
í skyndi hjálpum – en hvað gerum við svo?
Björgum málunum og hratt við hreykin
hringjum í einn, einn, tvo.