Skyndihjálp

Endurlífgun

Hvað sérðu
Hvað sérðu?

Meðvitundarlaus

 • Einstaklingurinn er meðvitundarlaus og bregst ekki við áreiti

Öndun er óeðlileg

 • Hallaðu höfði einstaklingsins varlega aftur. Horfðu og hlustaðu eftir því hvort hann andar eðlilega?
 • Horfðu á hvort brjóstkassinn rís og hnígur og gáðu hvort þú finnir andardrátt á vanga þínum.
 • Ef þú finnur ekki andardrátt skaltu byrja endurlífgun með hjartahnoði
Hvað sérðu
Skyndihjálp

Hringdu strax í Neyðarlínuna 112

Byrjaðu hjartahnoð

 • Krjúptu við hlið einstaklingsins. Leggðu þykkhönd annarrar handar á miðjan brjóstkassann. Leggðu þykkhönd hinnar handarinnar ofan á þá fyrri og læstu fingrunum saman. Gættu þess að að axlirnar séu beint yfir hnoðstað.
 • Þrýstu kröftuglega beint niður á miðjan brjóstkassann, á ekki minni hraða en 100 hnoð á mínútu. Léttu öllum þrýstingi af brjóstkassanum áður en þú þrýstir aftur niður
 • Haltu áfram að endurlífga þar til hjálp berst. Ef einhver annar er á staðnum skuluð þið skiptast á að hnoða á um tveggja mínútna fresti, án þess að gera hlé á hnoðinu.
Spurningar og svör
 • Hvernig veit ég að einstaklingurinn er meðvitundarlaus?

  Hann svarar ekki kalli eða annarskonar áreiti.

 • Hvað á ég að gera ef einstaklingurinn er meðvitundarlaus en andar eðlilega?

  Veltu honum á aðra hliðina og hallaðu höfðinu aftur. Hringdu í Neyðarlínuna 112 eins fljótt og verða má. Fylgstu með ástandi einstaklingsins þar til sérhæfð hjálp berst.

 • Af hverju skiptir svona miklu máli að endurlífga?

  Súrefni er okkur lífsnauðsynlegt og með blóðinu flytur súrefni til líffæra. Þegar hjartað hættir að slá stöðvast hringrás blóðsins. Ef heilinn er án súrefnis í nokkrar mínútur fara heilafrumur að deyja. Því þarf að hefja endurlífgun sem fyrst.

 • Nota ég sömu aðferðina við að hjartahnoða börn og ungabörn?

  Í grunninn er aðferðin sú sama en þegar um börn eða ungabörn er að ræða er farið aðeins öðruvísi að. Þegar um barn á aldrinum eins árs til kynþroskaaldurs er að ræða skal nota aðra höndina og þrýsta brjóstkassanum niður um 5 cm. Þegar um ungabarn (yngra en eins árs gamalt) ræðir skal nota tvo fingur til að þrýsta brjóstkassanum niður um 4 cm.

 • Af hverju á ég að halla höfði einstaklingsins aftur þegar ég vil athuga hvort hann andar?

  Hjá meðvitundarlausum einstaklingi slaknar á tungunni og hún getur lokað öndunarveginum. Með því að halla höfðinu aftur opnast öndunarvegurinn þar sem tungan færist fram.

 • Hvernig á ég að kanna hvort einstaklingurinn andi eðlilega?

  Hallaðu höfði einstaklingsins aftur. Horfðu á hvort brjóstkassinn rís og hnígur og gáðu hvort þú finnur andardrátt á vanga þínum.

 • Hvað er hjartahnoð?

  Hjartahnoð er það kallað þegar þegar þú setur báðar hendur á miðjan brjóstkassann og skiptist á að þrýsta hratt og endurtekið niður á við og létta öllum þrýstingi af til að tryggja lágmarks blóðflæði um líkamann.

 • Hvað á ég að hnoða lengi?

  Þar til sérhæft björgunarfólk eða annar með þjálfun í skyndihjálp kemur á staðinn og tekur yfir endurlífgunina. Þú finnur lífsmark með einstaklingnum og hann andar eðlilega. Sjálfvirkt hjartastuðtæki er tilbúið til notkunar. Þú örmagnast. Öryggi þínu er ógnað.

 • Getur verið að ég brjóti rifbeinin í einstaklingnum?

  Það gæti gerst en ekki hafa áhyggjur af því. Mundu að það er forgangsatriði að tryggja blóðflæði. Brotið rifbein grær en ef hjartahnoð er ekki framkvæmt minnka lífslíkur einstaklingsins umtalsvert.

 • Hvað á ég að gera ef ég er einn á ferð og kem að einstaklingi sem er meðvitundarlaus, svarar ekki áreiti og andar óeðlilega.

  Hringdu fyrst í Neyðarlínuna 112 og byrjaðu svo hjartahnoð.

 • Hvað ef mér skjátlast og ég framkvæmi hjartahnoð en einstaklingurinn reynist anda eðlilega?

  Það er ekki ákjósanlegt en ekki hafa áhyggjur - engar rannsóknir bendir til þess að þú getir valdir alvarlegum skaða.

 • Á ég ekki að beita munn við munn aðferðinni líka?

  Ef þú treystir þér til getur þú skipst á að hnoða og blása í munn einstaklingsins. Hins vegar er mikilvægast að beita hjartahnoði þar sem súrefni er enn til staðar í blóðinu fyrstu mínúturnar eftir hjartastopp. Með því að hnoða nærðu að viðhalda lágmarks blóðflæði um líkamann þannig að súrefnið berist til heilans. Blástur í munn eða nef eykur súrefnismagnið í lungum einstaklingsins. Endurlífgun felur í sér að hnoða 30 sinnum og blása 2 sinnum til skiptis.

 • Hvernig framkvæmi ég munn við munn / blástursaðferð?

  Beittu fyrst hjartahnoði 30 sinnum og ef þú treystir þér til blástu því næst 2 sinnum jafnt og þétt í munn einstaklingsins. Klemmdu fyrst fyrir nefið og settu svo munninn á þér alveg yfir munn einstaklingsins og reyndu að tryggja að ekkert loft leki með hliðunum eða út um nefið. Þegar um ungabarn er að ræða (barn yngra en eins árs) skaltu setja munninn á þér alveg yfir munn og nef barnsins vegna smæðar andlits þess.

 • Fæ ég hjartað til að slá aftur með því að beita hjartahnoði?

  Líkurnar á því að hjartað fari að slá við það eitt að hjartahnoði sé beitt eru hverfandi. Til þess að fá hjartað til að slá á ný þarf yfirleitt að gefa því rafstuð með hjartastuðtæki. Hjartahnoð tryggir hins vegar lítið en lífsnauðsynlegt blóðflæði um líkamann og heldur heilanum á lífi. Ekki gefast upp þótt þú sjáir ekki breytingar á ástandi einstaklingsins. Hjartahnoðið eykur töluvert líkurnar á því að sérhæft björgunarfólk geti lífgað einstaklinginn við þegar það mætir á staðinn.

 • Hvað er hjartastuðtæki?

  Sjálfvirkt hjartastuðtæki er tölvustýrt tæki sem getur leiðrétt hjartsláttartruflun með rafstuði. Þegar kveikt er á tækinu gefur það fyrirmæli, yfirleitt munnleg, um hvað gera skal.

 • Má ég nota hjartastuðtæki?

  Já þú mátt nota hjartastuðtæki. Á mörgum fjölförnum stöðum svo sem í verslunarmiðstöðum og íþróttahúsum má finna slík tæki. Hjartastuðtæki gefa ekki rafstuð nema ástæða sér til. Þó að hjartastuðtæki gefi rafstuð er það engin trygging fyrir því að hjartað fari að slá á ný.

 • Hvernig á ég að bregðast við drukknun, þegar einstaklingurinn er meðvitundarlaus, svarar ekki áreiti og andar ekki eðlilega.

  Ekki fara út í vatn (sjó, sundlaug) til að bjarga drukknandi einstaklingi nema þú hafir þjálfun til þess. Náðu í sundlaugavörð eða einhvern sem hefur nægilega þjálfun til þess að draga einstaklinginn upp úr vatninu á skjótastan og öruggastan hátt. Ef einstaklingurinn andar ekki þegar hann er kominn í land skaltu veita viðeigandi aðstoð.

  Í því felst að bæði blása og hnoða til þess að koma súrefni út í blóð einstaklingsins. Blástu fyrst 5 sinnum, hnoðaðu svo 30 sinnum og blástu 2 sinnum til skiptis. Klemmdu fyrir nefið og settu munninn á þér alveg yfir munn einstaklingsins og reyndu að tryggja að ekkert loft leki með hliðunum eða út um munn. Blástu lofti jafnt og þétt. Þegar um ungabarn er að ræða (barn yngra en eins árs) skaltu setja munninn á þér alveg yfir munn og nef barnsins vegna smæðar andlits þess. Haltu áfram að að hnoða 30 sinnum og blása tvisvar sinnum til skiptis þangað til sérhæft björgunarfólk kemur á staðinn.

 • Missir fólk meðvitund og hættir að anda ef það fær hjartaáfall?

  Verkur fyrir brjósti/hjartaáfall getur verð vísbending um þrengingar í kransæðum. Ef kransæðar stíflast er talað um hjartaáfall. Hjartaáfall getur leitt til hjartastopps.